149. löggjafarþing — 106. fundur,  20. maí 2019.

tækifæri garðyrkjunnar.

[17:01]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Herra forseti. Það ber að þakka þessar umræðu allar, þær eru góðar og gagnlegar. Við ræðum um hagnýtingu jarðhita sem er ómetanleg auðlind á landi okkar. Þá vil ég minna á að tækifærin liggja í því sem við köllum frumframleiðslu, þ.e. þörungum, skelfiski, ylrækt, fiskeldi, efni úr alls konar hráefni í verðmæti og líka í endurnýtingu úrgangs úr frumframleiðslunni sjálfri. Þetta eru tækifærin.

Það er nú þannig að við getum séð hvar kreppir að. Það er orkuverðið. Það hefur margoft komið fram í ræðum hv. þingmanna, það er afgerandi og það þarf að lækka enn frekar með sanngjörnum aðferðum. Það er auðvitað nýsköpunarumhverfið. Það eru bæði styrkir og auðveldari aðkoma að fjármagni, og það nægir að nefna það sem hefur verið gert, bæði varðandi lýsingu og ræktunaraðferðir. Svo er kolefnissporið afgerandi líka. Nýlega kom fram varðandi blómaframleiðendur að þeir geta annað allri innlendri eftirspurn en gera það ekki frammi fyrir gríðarlegum innflutningi.

Framtíðarmúsíkina tel ég vera matvælastóriðju á Íslandi. Það er þá bæði ylrækt grænmetis og ég vil líka nefna fiskeldið og annars konar verðmæti úr sjó. Þá er ég að tala um innanlandsframleiðslu, að auka hana, og það þarf einhverjar ívilnanir til þess að hvetja til enn frekari neyslu og framleiðslu og svo til útflutnings, en þar þurfa að koma til vistvænar leiðir í flutningi milli landa.

En hvernig sem fer er þetta stórt endurskoðunarverkefni sem þarf að takast á við í þágu bæði umhverfis- og loftslagsmála.