149. löggjafarþing — 106. fundur,  20. maí 2019.

um fundarstjórn.

[17:30]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Herra forseti. Ég vil eindregið taka undir óskir þingmanna sem hafa komið upp hver á fætur öðrum og beint þeirri spurningu til hæstv. forseta af hverju verið er að breyta bæði boðaðri dagskrá og samþykktri dagskrá. Mér finnst það alger óþarfi. Mér finnst líka alger óþarfi að tala niður til þeirra þingmanna Miðflokks eða annarra stjórnarandstöðuflokka sem hafa verið að koma sínum sjónarmiðum á framfæri í öðru máli. Það vita allir að ég er eindreginn talsmaður þess að orkupakkinn fari hér í gegn en það er samt ekki boðlegt að tala þannig til þeirra sem eru á móti því að þeir þurfi endilega að gera það í björtu eða að þeir séu að óska eftir því að fá einhverja sérmeðferð. Það er ekki þannig.

Ég vil hvetja hæstv. forseta til þess að taka aftur á dagskrá eða koma með almennilega útskýringu á því af hverju máli nr. 838 hefur verið hent út af dagskrá. Þetta ber allt vott eða keim af ákveðnu geðþóttavaldi. Ekkert samráð — (Forseti hringir.) fyrir hádegi var samráð haft við alla þingflokka. Það varð ákveðin niðurstaða og það þarf (Forseti hringir.) að segja okkur frá því ef á að bregða út frá þeirri samþykktu niðurstöðu. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)