149. löggjafarþing — 106. fundur,  20. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[18:50]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, það hefur verið rýnt. Það kemur líka fram í 5. tölulið, í umsögn hv. fræðimanna um þetta mál, að leiðin sem hv. þingmaður vill fara og Miðflokkurinn er ekki heldur gallalaus. Það er engin gallalaus leið. Þetta er alþjóðasamstarf. Það er einfaldlega ekki þannig að maður fái bara allan gullpottinn í hendurnar og þurfi ekki að gefa neitt til baka. Þannig virkar samstarf ekki, þannig virkar pólitík ekki. Þannig virkar eiginlega ekki neitt.

Hv. þingmaður fór út í lagalegu ástæðuna fyrir því að þennan fyrirvara þurfi. Og það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að við þurfum að halda stjórnarskrána, jafnvel þótt ákvæðin taki ekki gildi núna. Það er það sem hv. fræðimenn voru að benda á og þess vegna voru fyrirvararnir settir. Og þeir sömu fræðimenn segja berum orðum að það dugi. Það eru allir lögfræðimenn sammála um þetta atriði, alla vega sem ég veit um — vissulega þessir tveir hv. fræðimenn vegna þess að þeir eru alveg skýrir í áliti sínu.

Vel á minnst: Segjum að þessi stjórnskipulegi vafi sé til staðar — ég er ekki sammála því að hann sé til staðar, en meira um það þegar ég hef meiri tíma — en segjum að hann sé til staðar — þá kemur hann upp þegar sú ákvörðun (Forseti hringir.) kemur til umræðu að leggja sæstreng. Með öðrum orðum torveldum við lagningu sæstrengs með þessari leið, með því að búa til stjórnskipulegan vafa (Forseti hringir.) eða sem sagt fresta honum þar til sá tími kemur. Það er til að vernda (Forseti hringir.) þá hagsmuni Íslands sem menn vilja verja með því að vera á móti sæstreng. Þess vegna (Forseti hringir.) tel ég málið beinlínis til bóta fyrir þá sem vilja ekki sæstreng.