149. löggjafarþing — 106. fundur,  20. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[19:03]
Horfa

Frsm. meiri hluta utanrmn. (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, hv. þingmaður reynir að gera það tortryggilegt að bent sé á marga staði þegar vísað er til fyrirvaranna. Það er alls ekki skrýtið af því að þeir eru á mörgum stöðum, þeir felast í alls konar málum, ekki síst í málunum sem eru í hv. atvinnuveganefnd þar sem kveðið er á um að þingið þurfi að samþykkja hvort við leggjum sæstreng eða ekki. Síðan eru fyrirvararnir tilteknir í þingsályktunartillögunni, sem verða svo nefndir í sérstakri reglugerð þess efnis þegar við afléttum stjórnskipulegum fyrirvara á málinu. Þannig að ég held að það séu bara hrein sannindi að þeir eru á mörgum stöðum og meiri hlutinn hafi þar rétt fyrir sér. Það er ansi erfitt að gera það tortryggilegt, enda er verið að bregðast við því eina áliti sem taldi þörf á að árétta það sérstaklega að þessi ákvæði giltu ekki um Ísland.

Á fundum hv. utanríkismálanefndar kom fram hjá öllum fræðimönnum, sem voru fjölmargir, sem leiddir voru fyrir nefndina og einnig í öllum álitsgerðum að fyrirvararnir væru ekki einu sinni þarfir af því að einungis væri verið að benda á augljós atriði, að ákvæði um að við værum tengd giltu ekki, af því að við erum ekki tengd. Þannig að allir fræðimenn töldu þessa lagalegu fyrirvara óþarfa, nema þeir tveir sem töldu þörf á þeim og komu með þá hugmynd um að gera þetta eins og ríkisstjórnin gerir hér. Þannig að það er ansi erfitt að segja að þetta sé afar umdeilt eða erfitt. Það er það bara ekki lengur.

Búið er að svara öllum þeim spurningum sem lagðar hafa verið á borðið, öllum þeim rangfærslum sem haldið hefur verið fram og meira að segja búið að sýna þá reglugerð, sem þessi fyrirvari sem snýr um að þessi ákvæði munu ekki taka gildi, er tiltekin. Þannig að ég veit ekki hvert hv. þingmaður er að fara með því að telja að hann verji EES-samninginn að einhverju leyti og skil í rauninni ekki að hann velji þetta mál (Forseti hringir.) og telji það ábyrgt fyrir framtíðina að fara í þessa óvissuför, sem við höfum fengið staðfest að er ekki jafn auðveld og hv. þingmaður vill meina.

(Forseti (ÞorS): Forseti beinir því til þingmanna að virða tímamörk.)