149. löggjafarþing — 106. fundur,  20. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[23:43]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir spurningarnar. Jú, það var vissulega athyglisvert þegar Carl Baudenbacher og frú dúkkuðu upp á Íslandi í boði íslenskra stjórnvalda, fengu bíl og væntanlega gistingu og flugfar, auk þess að vera verktaki við að skrifa þessa álitsgerð. Baudenbacher skrifar í sinni álitsgerð í rauninni að 102. gr. sé klárlega þess eðlis að við getum nýtt hana.

Það er rétt hjá hv. þingmanni að það er ákveðinn pólitískur vinkill sem ekki er tekið tillit til í þessari álitsgerð, en á sama tíma kveður álitsgjafinn upp úr með einni pólitískri yfirlýsingu, það er yfirlýsingin um að það gæti orðið einhver óvissa um EES-samninginn. Það er vitanlega ekkert annað en pólitísk yfirlýsing vegna þess að það er skrifað í lög, eins og álitsgjafinn sagði, að greinin er þarna og hún er þarna til að nota hana. Þótt hún hafi ekki verið notuð í 25 ár, það breytir því ekki að hún er í samningnum. Þetta er ekki einhver neyðarréttur, þetta er í samningnum.

En það er hins vegar rétt að það er ekki horft til þess að Evrópusambandið hefur um langt skeið haft mikinn áhuga á því að tengja Ísland við markaði. Auðvitað ætti það að veita okkur ákveðið vægi þegar kemur að viðræðum við sambandið. Ég held hins vegar að við höfum verið nokkuð skýr fram að þessu, margir íslenskir stjórnmálamenn, í það minnsta, sæstrengur sé eitthvað sem er ekki mjög fýsilegt. En það eru vitanlega aðrir sem hafa gefið því undir fótinn að fara þá leið og vera má að það veiki okkar stöðu eitthvað til að beita þessu útspili.