149. löggjafarþing — 106. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[01:09]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir fyrirspurnina. Það er alveg rétt að þessi þróun hefur skilað okkur mjög góðum hlutum, eins og t.d. því að við höfum getað farið í ylrækt, en hluti af því að geta farið í ylrækt er önnur orkuuppspretta sem er jarðvarmi. Hann var einmitt notaður fyrst til húshitunar í minni sveit, í Reykholtsdalnum. Hann er líka notaður í gróðurhúsum til að halda uppi hita en raforkan notuð til lýsingar til að hvata vexti grænmetis.

Ég held að við getum öll þakkað fyrir að þurfa ekki að éta þara og söl til að fá ekki skyrbjúg heldur getum við borðað grænmeti. Ég held að svæðaskiptingin sem hv. þingmaður spyr um muni flýta þessari þróun sem við erum að ræða svo að áður en við getum snúið okkur við verðum við ekki sjálfstætt, fullvalda ríki þegar kemur að orkumálum heldur verðum við undir einhverri svæðaskipan (Forseti hringir.) þar sem einfaldur meiri hluti atkvæða ræður en ekki það ríkisvald sem við höfum nú.