149. löggjafarþing — 106. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[01:10]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Ég ætla í þessari ræðu minni, sem er sú þriðja um þessa þingsályktun, að tala um lagalega fyrirvarann og fleira honum tengt og ætla að byrja á að fara aðeins yfir innleiðingarferlið á reglugerðum Evrópusambandsins.

Fyrst eru nýjar reglugerðir, sem koma á færibandi Evrópusambandsins, lagðar fyrir sameiginlegu EES-nefndina sem samanstendur af fulltrúum fyrir báða samningsaðila EES-samningsins, þ.e. Evrópuþjóðirnar, þær sem eru í Evrópusambandinu sjálfu, og EFTA-þjóðirnar, þar á meðal Íslendinga. Þar er því velt upp, á vettvangi þessarar nefndar, hvort viðkomandi regluverk sem þarna er undir og er tekið fyrir á þessum fundi gangi eða gangi ekki upp, hvort þjóðirnar telji það ganga snurðulaust inn í lagaumhverfi þeirra og hvort við viljum, nú eða þurfum að, innleiða reglurnar.

Ef EFTA-þjóðirnar telja að eitthvað í regluverkinu þurfi að innleiða með lagasetningu flagga þær, eins og sagt er, þ.e. að EFTA-ríkin, eitt eða fleiri, setja stjórnskipulegan fyrirvara við gerðirnar. Fyrirvaranum er aflétt hér á Íslandi með þingsályktunum, og má í sjálfu sér deila um þann framgangsmáta, þar sem þingsályktanirnar eru léttvægari en lagasetning að mörgu leyti, bæði í meðförum þingsins en einnig að því leyti að ekki þarf atbeina forseta lýðveldisins eða undirskrift hans þegar um þingsályktanir er að ræða, sem er ólíkt lagasetningu. Það má deila um þetta. En svona hefur þetta nú verið.

Um leið og því er lokið og þessi þingsályktun hefur hlotið samþykki Alþingis erum við bundin af þjóðarétti — til hvers? Til þess að löggjöf hér innan lands gangi ekki í bága við það regluverk sem á bak við liggur. Við erum bundin því að íslensk lög, hverju nafni sem þau nefnast, gangi ekki í bága við regluverkið. Um leið og öll EFTA-ríkin hafa aflétt þessum fyrirvörum eru reglugerðirnar þar með innleiddar í viðauka við EES-samninginn. Þá hvílir sú skylda á EFTA-löndunum, þar á meðal Íslandi, að breyta lögum til samræmis við regluverkið þannig að það virki hér á landi, þ.e. ef lög hér innan lands stangast á einhvern hátt á við regluverkið erum við skyldug til breytingar á löggjöfinni. Við erum skuldbundin til þess þegar búið er að aflétta þessum fyrirvara.

Nú fjöllum við um regluverk sem hingað kemur í einum pakka, svokölluðum orkupakka þrjú. Og hvað er ólíkt í því tilfelli samanborið við hefðbundið dæmi sem ég tók hér ofan? Hvað er ólíkt í tilviki orkupakka þrjú og þeim framgangsmáta sem ég var að lýsa? Svarið er: Nákvæmlega ekki neitt. Og hvað má þá segja um hinn lagalega fyrirvara sem við heyrum stjórnarliðana tala svo mikið um? Hvað má segja um hann í þessu samhengi? Geta íslensk stjórnvöld sett slíkan fyrirvara? Svarið er nei, vegna þess að eini fyrirvarinn sem dugir er að undanþiggja okkur frá einstökum reglugerðum eða löggjöfinni hjá sameiginlegu EES-nefndinni. Slíkir fyrirvarar fara í gegnum ákveðið ferli sem liggur fyrir í EES-samningnum.

Allar hugmyndir, herra forseti, sem vakna í einstökum löndum um að löggjöfin hljómi einhvern veginn öðruvísi en textinn segir til um eru einskis virði. Jafnvel þótt aðilar gangi lengra og segist skilja löggjöfina á einn eða annan hátt og lýsi því jafnframt beinlínis yfir að svo sé, þá er það líka einskis virði. Og jafnvel þótt einstakir forustumenn í Evrópulöndunum segist sammála því að löggjafinn hafi tiltekin áhrif í tilteknum löndum, er það líka einskis virði. Og loks: Þó að einstök lönd setji um þetta lög í sínu landi eru þau einskis virði ef þau ganga í berhögg við regluverkið sem innleitt hefur verið og ríkið hefur skuldbundið sig til að innleiða.

Hvað er ég að segja? Þegar öllu er á botninn hvolft, herra forseti, gilda hér engir fyrirvarar. Og það sem hefur verið bent á er í raun einungis til innanlandsbrúks. Í því sambandi veltir maður ýmsu fyrir sér. Af hverju er þá verið að tala um lagalega fyrirvara eins og þeir skipti einhverju máli? Af hverju verið að því?

Ég verð að segja að eins og þetta lítur út er hér um einhvers konar orðskrúð að ræða og þá í þeim tilgangi að slá ryki í augun á fólki, að þetta orðalag um lagalega fyrirvara skipti einhverju máli, sem það gerir ekki (Forseti hringir.) í raun og veru.

Ég vil biðja forseta um að setja mig aftur á mælendaskrá. Ég er ekki hálfnaður.

(Forseti (SJS): Það er rétt að þingmaðurinn klári andsvör sem beðið hefur verið um.)