149. löggjafarþing — 106. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[02:52]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Þorsteini Sæmundssyni andsvarið. Ég held að þetta komi svo sem dálítið inn á það sem ég sagði í niðurlagi ræðu minnar eftir að hafa farið yfir pistil Viðars Garðarssonar frá 16. maí sl., að ríkisstjórninni og stuðningsmönnum þriðja orkupakkans hefur mistekist alveg fullkomlega að útskýra, með leyfi forseta: „What's in it for us?“ Hvers vegna ættum við að innleiða þennan pakka? Hvað er í honum fyrir okkur? Það verður að vera eitthvað jákvætt á móti þeim takmörkunum og kostnaðarauka sem menn sjá fyrir sér.

Ég held að t.d. viðbrögð bakarameistaranna, grænmetisbænda og fleiri stétta séu slík vegna þess reyna að þeir reyna á eigin skinni hvaða áhrif þetta hefur. Því að það er auðvitað það sem hverjum manni stendur næst, eigin budda, eigin rekstur, fjölskyldan og hvernig þetta snertir hvern og einn, sem menn finna fyrir. Það sama á auðvitað á við um öll þau fyrirtæki, smáfyrirtæki, fjölskyldufyrirtæki, sem standa í iðnaði landið um kring, eða fjölbreyttum landbúnaði sem reiðir sig á raforku.

Ég held að þetta verði ekki lagað nema menn stígi eitt, tvö skref til baka, taki málið úr þeim farvegi sem það er í núna og annaðhvort vísi því til sameiginlegu EES-nefndarinnar eða fresti fram á haustþingið þannig að mönnum gefist tækifæri til þess að kynna málið betur, ef það er svona gott, eða þá að gera þær lagfæringar á því sem nauðsynlegar eru til að (Forseti hringir.) fólk og fyrirtæki geti lifað í sátt við þessa breytingu og innleiðingu.