149. löggjafarþing — 106. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[04:13]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Mig langar aðeins að skoða aðdragandann að orkupakka eitt þegar hann var innleiddur á sínum tíma og þá vil ég vitna hér í bréf sem er frá iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu frá 20. ágúst 2001. Þar er fjallað um niðurgreiðslur á rafmagni til húshitunar. Þar segir, með leyfi forseta:

„Frá þeim tíma hefur hlutur niðurgreiðslna aukist verulega jafnframt því sem orkufyrirtæki veita nú afslátt af raforku til hitunar íbúðarhúsnæðis.“

Svo segir áfram:

„Þá mun breytt skipan orkumála sem unnið er að líklega kalla á breytingar á þessum reglum.“

Ég endurtek: „… líklega kalla breytingar á þessum reglum.“

Orkufyrirtækin veittu afslátt af raforku til hitunar íbúðarhúsnæðis. Svo segir ráðuneytið hér að þetta muni líklega breytast. Þeir vita það hins vegar ekki nákvæmlega. Síðan kemur á daginn að þeir höfðu rétt fyrir sér. Rafmagn til húshitunar hækkaði verulega á sumum svæðum. Rafmagn til fyrirtækja hækkaði, ég nefni sem dæmi bakarameistara, sem keyptu ódýra orku á næturnar, og fleiri fyrirtæki.

Þannig að þarna sjáum við að ráðuneytið, sem er að undirbúa þessa löggjöf, veit í raun og veru ekki nákvæmlega hvað hún mun hafa í för með sér. Þetta eru náttúrlega alveg ótrúleg vinnubrögð, herra forseti, það verður bara að segjast eins og er. Þess vegna er maður hræddur um að það nákvæmlega sama muni gerast varðandi orkupakka þrjú, að menn viti í raun og veru ekkert hvað það mun þýða fyrir almenning og fólkið í landinu. Mig langar til að heyra frá hv. þingmanni (Forseti hringir.) hvað honum finnst um þetta og þá samlíkingu þarna sem ég nefndi.