149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

störf þingsins.

[13:47]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Í nýlegu áliti siðanefndar kemur fram að hv. þm. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir hafi gerst sek um brot á siðareglum þingmanna. Í sama áliti kemur fram að ég hafi ekki gerst sekur á broti á siðareglum að því er virðist af því að siðanefnd skildi mig ekki. Þau orð sem ég lét falla voru efnis- og innihaldslega nákvæmlega þau sömu og hv. þm. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir var dæmd brotleg fyrir. Vissulega notaði ég ekki nákvæmlega sömu orðin og það getur vel verið að það skipti máli þegar siðanefnd leggur mat sitt á merkingu orðanna.

Forseti. Mig langar því að vera eins skýrmæltur og ég get vegna álits forsætisnefndar þegar erindi mínu um endurgreiðslur vegna aksturskostnaðar var vísað frá þar sem kom fram að Ásmundur Friðriksson hafði vissulega fengið endurgreiðslu frá Alþingi vegna þáttagerðar fyrir ÍNN, að hann hafði hann fengið endurgreiðslur fyrir notkun á eigin bíl þrátt fyrir að það væri gegn reglum um slíkar endurgreiðslur og vegna þess að Ásmundur játaði að hafa fengið endurgreiðslur vegna prófkjörsbaráttu í eigin flokki, sem er klárlega ekki hluti af starfi hans sem þingmanns.

Þá verð ég að tjá skoðun mína aftur og nota nú orð sem allir skilja, þar á meðal siðanefnd. Nú er rökstuddur grunur um að Ásmundur Friðriksson hafi dregið sér fé, almannafé, og við sjáum ekki viðbrögð þess efnis að verið sé að setja á fót rannsókn á því.

Ég segi þau orð með fullri vitneskju um að þau hafi verið dæmd sem brot gagnvart siðareglum þingmanna. Við vitum það hins vegar öll hérna inni að þau eru sönn. Fyrir því liggur játning og staðfesting um frávísun forsætisnefndar. (Forseti hringir.) Þess vegna er þetta rökstuddur grunur í allri merkingu þeirra orða. Ef við getum gerst brotleg við siðareglur fyrir að segja satt (Forseti hringir.) er voðinn vís.

(Forseti (SJS): Forseti telur þessa notkun dagskrárliðarins ekki við hæfi.)