149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[16:06]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Landsvirkjun er eign þjóðarinnar og Landsvirkjun skilar gríðarlegum fjármunum. Það sem ég óttast mest er að þeir fjármunir fari og renni í einkavasann. Ég kom hér upp í ræðustól fyrr í dag til að benda á að 350 börn eru á biðlista vegna þess að ekki virðast vera til peningar til að sjá til þess að þau fái þá þjónustu sem þau eiga rétt á — sem er auðvitað rangt, peningarnir eru til en þeir eru bara ekki settir í rétt mál.

Það segir sig sjálft að ef raforkuverð á Íslandi þrefaldast verður það fólk sem er þarna úti og á ekki til hnífs og skeiðar í dag, á ekki fyrir mat, lyfjum eða neinu, í enn verri málum. Við verðum að átta okkur á því að það er stór hópur þarna úti sem er á lægstu launum og framfærslu ríkisins sem er langt undir fátæktarmörkum. Þetta fólk býr á svæðum þar sem þarf rafmagnskyndingu. Ég segi bara: Guð hjálpi því fólki. Það hlýtur að vera skelfileg tilhugsun fyrir þá einstaklinga að fram undan séu stórhækkanir á raforkuverði. Við verðum líka að horfa á þetta í samhengi vegna þess að ef raforkan hækkar þá hækka líka aðföng, matur og aðrir hlutir sem tilheyra framleiðslu. Það verða í sjálfu sér miklu meiri hækkanir en eingöngu á raforkunni, keðjuverkandi hækkanir munu verða úti í samfélaginu.