149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[16:13]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Ég tek undir það með hv. þm. Jóni Þór Þorvaldssyni að hv. þingmaður hefur getið sér gott orð í þinginu fyrir að hafa talað fyrir málefnum þeirra sem minna mega sín í samfélaginu, öryrkja; hann hefur gert það vel sem er þakkarvert. Í því sambandi vildi ég einmitt koma inn á það sem menn hafa haldið fram, þeir sem eru fylgjandi innleiðingu þessarar tilskipunar, þ.e. neytendaverndina. Neytendavernd skiptir miklu máli fyrir þá sem eru tekjulágir og jafnvel á örorkubótum, sem eru því miður allt of lágar, og eiga erfitt með að framfleyta sér, erfitt með að ná endum saman um hver mánaðamót. Það skiptir máli að þeir hafi tök á því að reyna að spara sér einhverjar krónur með ýmsum hætti.

Það hefur einmitt verið lögð áhersla á það í þessum sal að þessir orkupakkar hafi gert það að verkum að nú geti þeir sem kaupa orkuna skipt um orkusala. Því hefur verið haldið fram að þetta sé svo mikilvægt atriði. En nú er það bara þannig að það svarar varla kostnaði að reyna að skipta um orkusala. Fyrir venjulegt heimili er verðmunurinn sáralítill eða enginn ef ég ætlaði að skipta um orkusala. Það er öll þessi neytendavernd sem þar er á ferðinni.

Það sem ég vildi fá frá hv. þingmanni er svar við spurningunni um hvort ekki sé hér verið að reyna að fegra svolítið sannleikann. Er ekki bara verið að reyna að blekkja fólk með því að setja svona fram? Hv. þingmaður þekkir það örugglega. Hans umbjóðendahópur, skjólstæðingar hans — þekkir hann til þess að þeir hafi sparað háar fjárhæðir með því að skipta um orkusala?