149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[18:36]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að það sé alveg full þörf á því og vel mælt hjá hv. þingmanni að nauðsynlegt sé að fara leið sem komi til með að halda þannig að við þurfum ekki að glíma við einhverja óvissu um hvernig þessum málum verði háttað. Það vekur auðvitað spurningar, og við höfum rætt það hér áður, hvers vegna stjórnvöld vilja ekki fara þá leið sem er fær og er besta leiðin.

Þeir álitsgjafar sem hafa gefið álit sitt, sérfræðingar í lögum, bæði fyrir utanríkismálanefnd og á öðrum vettvangi hafa einmitt bent á þetta, að ekki sé verið að fara bestu leiðina. Þá veltir maður fyrir sér, hvers vegna? Hver er ástæðan? Hún hlýtur einfaldlega að vera sú að mikill þrýstingur er frá þessum orkufyrirtækjum og þeim sem hafa í hyggju áform um orkuvinnslu hér á landi, vindorku, virkjanir undir 10 megavöttum o.s.frv.

Það hlýtur að vera mikill þrýstingur frá þessum aðilum í þá veru að ekki sé verið að loka fyrir það að við komum til með að verða þátttakendur á þessu sameiginlega markaðssvæði. Því að þá væri verið að kippa stoðunum undan þeim fyrirtækjum, þeim fjárfestum sem hafa þessi áform í hyggju ef þeir sjá fram á það að komin er varanleg undanþága um það að við verðum ekki þátttakendur í þessu. Ég held því að þetta sé kjarni málsins, þ.e. þessi færa leið. En það er einhver ástæða fyrir því að stjórnvöld vilja ekki fara þá leið. Því er haldið fram að það sé vegna þess að menn óttist að EES-samningurinn sé í hættu. Ég held að það sé algjör fyrirsláttur.