149. löggjafarþing — 108. fundur,  22. maí 2019.

endurskoðun fjármálastefnu og málefni sveitarfélaga.

[15:45]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég sé ekki hvernig menn komast að þeirri niðurstöðu að ríkissjóður sé að fjármagna útgjöld sín með því að leggja byrðar á sveitarfélögin. Á meðan hagvöxtur var mikill höfum við verið að gera kröfu til þess að menn skiluðu einhverju framlagi í heildarafkomu hins opinbera og um það hefur tekist alveg þokkaleg sátt í því fyrra samkomulagi sem gert var og oftar en einu sinni. Að þessu sinni vannst okkur einfaldlega ekki tími til að ljúka samtali við sveitarfélögin. Við tefldum fram þessari hugmynd. Við létum það fylgja að framkvæmd hennar væri háð því að um hana tækist samkomulag. Eftir að ný hagspá kom þá höfum við átt fullt í fangi með að reikna upp að nýju forsendur á tekju- og gjaldahlið og horfa yfir sviðið fyrir hið opinbera í heild. Það er í raun ekki fyrr en við sjáum fram úr þeim tölum öllum sem við höfum forsendur til að setjast niður með sveitarfélögunum. En ég hef óskað eftir þeim fundi nú þegar.