149. löggjafarþing — 108. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[18:43]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta er mjög áhugavert. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir. Eins og þetta virðist blasa við okkur í Noregi var orkupakki þrjú innleiddur þar. Eftir stendur að taka þarf ákvörðun um hvort rétt hafi verið staðið að málum. Ég held að það séu 14 til 16 mánuðir síðan fyrirvarar voru settir fram þar og síðan hefur ekkert til þeirra spurst.

Miðað við það að strax er farið að innleiða það sem kemur fram í orkupakka fjögur í Noregi, það er alla vega farið að huga hressilega hratt að þeirri innleiðingu, getur maður ímyndað sér að það sama verði uppi á teningnum hér. Það sem verra er að nú höfum við alls ekki séð hvað felst í orkupakka fjögur og höfum því ekki hugmynd um hvað er í honum; við vitum þó að hann er 1.000 blaðsíður. Ég er ekkert viss um að sú afgreiðsla, ef allir hlutir eru eins og mér sýnist blasa við, fari í gegnum þingmenn á Alþingi Íslands. Það kæmi mér ekkert á óvart að það sé þessi pakki sem skiptir hvað mestu máli til að geta komið pakka fjögur hratt og örugglega í gegn. Alla vega sýnist mér það líta þannig út ef við horfum til Noregs.