149. löggjafarþing — 108. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[21:12]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Það atriði sem hv. þingmaður nefndi, þeir hópar sem hafa haft það að markmiði að veikja viðnámsþrótt þjóðarinnar, eins og hv. þingmaður orðaði það réttilega, eru allsérkennilegt fyrirbrigði og fyrirfinnst víðar en á Íslandi. Ég er t.d. þeirrar skoðunar að vandræði Bretlands vegna Brexit, útgöngu úr Evrópusambandinu, séu að miklu leyti til komin vegna slíkra hópa þar í landi sem virðast nýta hvert tækifæri til þess að skerða samningsstöðu eigin lands vegna þess að hollustan við Evrópusambandið er meiri en við eigið ríki. Í því samhengi er orðalagið sem hv. þingmaður vísar í um mikilvægi þess að sýna Noregi hollustu dálítið sláandi. Hvað sem líður þeim mistökum sem gerð voru árið 1262 hefði ég haldið að allir Íslendingar ættu að geta verið sammála um að það væri liðin tíð. En sú er kannski ekki raunin því að þeir eru til sem taka svona skilaboðum fagnandi hér á landi.

Hins vegar vil ég benda á og heyra álit hv. þingmanns á því hvort ekki geti verið það sama uppi á teningnum í Noregi, að þeir sem hafa meiri áhuga á því sem gerist í Brussel en í sínu heimalandi vilji að Ísland sýni Noregi hollustu. Hins vegar sé norskur almenningur og stór hluti norskra þingmanna þeirrar skoðunar að Íslendingar eigi að verja sinn rétt og Norðmenn sinn og þetta geti jafnan haldist í hendur svoleiðis að styrkur Íslands innan EES-samstarfsins sé um leið styrkur Noregs.