149. löggjafarþing — 108. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[21:23]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni fyrir andsvarið. Það er auðvitað alveg ljóst í þessu máli að ríkisstjórnin hefur sýnt í verki, ekki bara í orði heldur í verki, að hún telur ekki að öllu leyti óhætt að samþykkja þennan orkupakka. Hún sýnir það í verki með því að leggja málið upp með þeim hætti að orkupakkinn verði samþykktur en með lagalegum fyrirvara. Það sem á vantar í því er að leiða í ljós hvernig þessi lagalegi fyrirvari vegur upp á móti þeirri hættu sem ríkisstjórnin telur bersýnilega að steðji að Íslendingum. Nú ber svo við að hér liggja fyrir drög að skjali sem er innleiðingarreglugerð iðnaðarráðherra á þeirri gjörð sem mest hefur verið rædd, þ.e. reglugerð sem ber númerið 713 og er frá 2009, en reglugerð á Evrópusambandslagamáli heitir á íslensku lög eða hefur a.m.k. lagagildi. Það á að innleiða þessa reglugerð, 713, þannig að hún fái lagagildi á Íslandi og þetta á að gera með reglugerð og í þessari reglugerð á að standa þessi fyrirvari.

Ég hafði tækifæri til að spyrja mikinn júrista, svo að ég noti það orð, mikinn og góðan lögfræðing, dr. Davíð Þór Björgvinsson, á fundi utanríkismálanefndar hvaða hald væri í slíkum fyrirvara. Hann svaraði með því að auðvitað væri það ekki neitt, slíkur fyrirvari væri bara ætlaður til heimabrúks.

Stjórnvöldum ber á hverjum tíma að gæta að hagsmunum þjóðar sinnar og stjórnvöld verða að fá að rækja það hlutverk án þess að úrtöluraddir hafi uppi þann hátt sem hefur eilítið borið á núna, (Forseti hringir.) að fara hinum háðulegustu orðum um þá aðila sem tala fyrir slíkri stjórnarframkvæmd og kenna þá við einangrunarhyggju, að ekki sé talað um popúlisma. Reyndar hafa fallið hér í þessum ræðustóli nýlega orð sem vekja alveg sérstaka furðu og ég tel ekki hafandi eftir.