149. löggjafarþing — 108. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[23:13]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Það er ánægjulegt að heyra að hv. þingmaður sé þeirrar skoðunar að ræðurnar um norsku fyrirvarana versni ekki. Ég get upplýst hann um að það er a.m.k. ein eftir og vonandi ná ræðurnar þar nýju hámarki, enda krassandi fyrirvarar þar á ferð sem varpa nýju ljósi á málið í heild.

En varðandi spurningu hv. þingmanns er algjört lykilatriði hvað varðar innleiðingu Norðmanna á þessum þriðja orkupakka, að sú innleiðing tekur ekki gildi fyrir Noreg fyrr en öll EES-ríkin, þ.e. þessi þrjú EES-ríki sem eru í EFTA, eru búin að innleiða hjá sér. Af þeim sökum reynir kannski ekki á þetta fyrr en að Ísland væri búið að innleiða þá.

Þetta veldur talsverðri togstreitu í Noregi þar sem margir binda vonir við Íslendinga, að þeir hjálpi Norðmönnum núna að koma málinu til sameiginlegu EES-nefndarinnar svo að þeir geti fengið staðfestingu á fyrirvörum sínum þar. Ekki hefur slík staðfesting borist frá Evrópusambandinu til þessa, á meðan aðrir í Noregi, köllum þá bara Evrópusinnana sem eru nú fjölmargir meðal embættismanna þó að þeir séu ekki stór hluti þjóðarinnar, Evrópusinnar í Noregi, vilja kannski síður að Ísland vísi málinu til sameiginlegu EES-nefndarinnar einmitt af þessari ástæðu að þá fengi Noregur tækifæri til að láta á fyrirvara sína reyna.

Þess vegna er það sem við ræðum hér í kvöld ekki aðeins mikið hagsmunamál Íslands, það er líka mikið hagsmunamál fyrir Norðmenn, að þeir fái tækifæri fyrir sameiginlegu EES-nefndinni til þess að fá fyrirvara eða undanþágur sem hald er í.