149. löggjafarþing — 109. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:40]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Frú forseti. Já, við kæmumst náttúrlega miklu hraðar yfir og kæmust fyrr að kjarna málsins ef þeir hv. þingmenn eða hæstv. ráðherrar sem ætlast til að þingið samþykki það mættu í þingsal eða í þinghúsið yfir höfuð og ræddu málið. Á meðan enginn er til að svara fyrir það neyðumst við í raun til að halda áfram rannsóknarvinnu okkar, að grafa upp hvað geti hugsanlega verið að gerast hjá þessum ríkisstjórnarflokkum, hvers vegna í ósköpunum þeir hafi algerlega kúvent, og þá er ég ekki bara að tala um kúvendingu með tilliti til fyrri yfirlýsinga, jafnvel glæsilegra ræðuhalda eins og í tilviki hæstv. fjármálaráðherra, heldur líka kúvendinguna miðað við afstöðu stuðningsmanna þessara flokka og miðað við grunnstefnu þeirra, jafnvel þær grunnhugsjónir sem þeir flokkar voru stofnaðir um. En þó verðum við að halda áfram að reyna að komast til botns í þessu og okkur til huggunar getum við rifjað upp að umræðan hefur þrátt fyrir allt skilað okkur áfram veginn. Við erum jafnt og þétt að uppgötva meira og átta okkur betur á stöðunni.

En það er hins vegar ekkert launungarmál að það myndi ganga hraðar og betur ef stuðningsmenn málsins treystu sér til að verja það hérna í þingsalnum. Á meðan þeir gera það ekki verðum við að halda okkar störfum áfram og vera minnug þess að þau, þrátt fyrir allt, skila árangri. Við erum stöðugt að uppgötva nýja fleti og fá fyllri mynd af málinu.