149. löggjafarþing — 109. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[00:06]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Þetta með verðlagshækkanirnar og það hvernig menn leyfðu sér einfaldlega að halda því fram að þetta stæðist ekki þrátt fyrir að geta kynnt sér hvort heldur sem var fréttir eða yfirlit yfir hvernig verðlag hefði þróast er enn eitt dæmið um viðskilnað nútímastjórnmála, þessara sýndarstjórnmála eða hvað við viljum kalla það, við veruleikann. Það gengur allt út á að búa til einhverja ímynd eða halda einhverju fram sem hljómar vel án nokkurrar tengingar við staðreyndir og raunveruleikann. Þetta leiðir hugann að fullyrðingum talsmanna þessa máls um að það feli í sér neytendavernd. Það var reyndar reynt að halda því sama fram um fyrri orkutilskipanir Evrópusambandsins en meira að segja Björn Bjarnason benti á það, eins og ég rakti áðan, að líkurnar væru á hinn veginn, að þetta myndi miklu frekar hækka verð, eins og kom á daginn og hv. þingmaður hefur sýnt fram á.

Getur það verið, hv. þingmaður, eins og maður hefur á tilfinningunni, að menn taki einfaldlega við einhverjum talpunktum frá útlöndum? Að þetta sé þá kynnt í Evrópu sem „meiri umhverfisvæn orka og neytendavernd“. Menn fái þau orð síðan send, sem falla mjög vel að sýndarpólitíkinni, þýði þau en staðfæri ekki, flytji svo bara þýðingu á þessum talpunktum Evrópusambandsins — innleiðum þriðja orkupakkanum til þess að ná meiri neytendavernd og lægra verðlagi — algjörlega án sambands við veruleikann?