149. löggjafarþing — 109. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[02:59]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Þetta er mjög athyglisvert umræðuefni í tengslum við þessa umræðu, þ.e. þriðja orkupakkann, hvernig stjórnmálaflokkarnir hafa breytt sinni stefnu — kannski hafa þeir ekki breytt sinni stefnu en þeir framkvæma ekki sína stefnu, framkvæma ekki það sem grasrótin hefur lagt upp með. Fólkið sem ber uppi flokksstarfið hefur fundað og sent frá sér ályktanir, fólkið sem vinnur í sjálfboðavinnu fyrir hverjar kosningar og er forsenda þess að hægt sé að bjóða fram til Alþingis og sveitarstjórna. Þá finnst manni það sjálfsögð kurteisi að fylgja vilja fólksins í þessum efnum og hér hefur hv. þingmaður einmitt lýst því hvernig Sjálfstæðisflokkurinn hefur farið á skjön við það sem grasrótin hefur ályktað um.

Við sjáum þetta líka hjá Framsóknarflokknum, það er áberandi, en Framsóknarflokkurinn hefur haldið sig mikið til hlés í þessari umræðu, reyndar óvenjumikið til hlés, verð ég að segja. Það er fyrst og fremst Sjálfstæðisflokkurinn sem ber uppi þetta mál. Og Vinstri grænir eru örugglega mjög þakklátir fyrir það vegna þess að þetta er mjög viðkvæmt málefni innan Vinstri grænna, þá sérstaklega er lýtur að umhverfismálunum.

En ég vil vekja athygli á því sem Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins, segir í pistli á Viljanum, sem ber yfirskriftina: Mestu mistök sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur gert í utanríkismálum. Er hv. þingmaður sammála því?