149. löggjafarþing — 109. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[03:15]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M):

Herra forseti. Hér hefur verið gert að umtalsefni stefna flokka og talsmanna þeirra. Í ræðu hér fyrr í kvöld kom hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson inn á það hæstv. ráðherra fjármála- og efnahagsmála hefði lent í því að skipta um skoðun frá því sem hann hafði áður sagt. Það að skipta um skoðun þarf ekki endilega að vera slæmt. Það getur verið gott. Það fer eftir því í hverju afstöðubreytingin felst.

Mig langar, með leyfi forseta, til að grípa hér niður í grein frammámanns í Vinstrihreyfingunni – græns framboði, Ögmundar Jónassonar, sem er fyrrverandi þingmaður og hæstv. ráðherra fyrir Vinstrihreyfinguna – grænu framboð. Heiti greinarinnar er: „Pylsan skorin niður í pakka“, en Ögmundur Jónasson er vel kunnugur landsmönnum og kannski helst fyrir það að vera afar staðfastur í sínum skoðunum og fylginn sér. Hann á sér marga velvildarmenn, hvar sem menn kunna að standa í stjórnmálum.

Með leyfi forseta ætla ég að lesa úr þessari grein:

„Markaðsvæðing raforkunnar og vatnsins hefur verið óvinsæl í Evrópu eins og einkavæðing grunnþjónustunnar almennt. Við svo búið hefur verið brugðið á það ráð að skera pylsuna niður í sneiðar eða pakka og hefur viðkvæðið þá verið hið sama: Þetta er ekki verri biti en sá fyrri“, segir Ögmundur Jónasson.

Í umsögn til Alþingis um þriðja orkupakkann segir Ögmundur hins vegar að það sé vegferðin öll og lokamarkmið hennar sem þurfi að horfa á, sem sé markaðsvæðing og í kjölfarið einkavæðing orkugeirans á Íslandi. Hann segir í umsögn sinni, með leyfi forseta:

„Þau okkar sem andvíg voru þessari þróun lögðust gegn samþykkt fyrsta og annars orkupakka og þykir mér ekki síður rökrétt að leggjast gegn samþykkt þessa pakka svo og þeirra sem fylgja í kjölfarið. Smám saman missum við sem samfélag forræðið yfir orkunni, auðlindum og vinnslu, og mun gangverk marðaðarins stýra för …“

Vísar Ögmundur þar m.a. til þess að VG hafnaði fyrsta og öðrum orkupakka Evrópusambandsins á sínum tíma þegar flokkurinn var í stjórnarandstöðu.

„Ég heiti á alla félagslega þenkjandi alþingismenn að taka höndum saman við öll þau sem nú vilja sporna gegn þessari óheillaþróun. Ef þau sem áður studdu málið telja að nú stefni að þeirra mati í ófyrirséð óefni þá ber að taka því fagnandi. Með markaðsvæðingunni er verið að byggja inn í kerfið hvata sem eru varasamir: Að virkja sem mest, fyrir sem mestan arð“, segir hann síðan enn fremur í umsögn sinni.

Hér lýsir Ögmundur Jónasson að ekki sé fært að móta sér afstöðu til málsins nema að skoða stóru myndina með gagnrýnu hugarfari og með tilliti til þess hverra hagsmuna sé rétt og skylt að gæta. Það er akkúrat það sem við erum að gera hér. Þetta er ekki — eins og sést best á því að fyrri ræðumaður, sá sem stóð á undan mér í ræðustól, hv. þm. Bergþór Ólason, lýsti sjónarmiðum þess flokk, og fyrrum ráðherra þess flokks, sem hvað lengst hafa verið hjá Vinstrihreyfingunni – grænu framboði í stjórnmálalegum skilningi, en engu að síður komast þessir menn að sömu niðurstöðu.

Ég held að það sé komið að því enn og aftur að hvetja ríkisstjórnina og forgöngumenn hennar til að endurskoða þetta mál án þess að þeim finnist þeir vera að ganga á bak orða sinna, heldur með það í huga að hér sé verið að gæta hagsmuna Íslendinga.