149. löggjafarþing — 109. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[05:16]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Engum blöðum er um það að fletta að ef ríkjabandalag eins og Evrópusambandið er þarf að taka afstöðu til máls þar sem hagsmunir ríkja stangast á má mikið ganga á áður en hagsmunir smáríkisins yrðu lagðir að jöfnu við hagsmuni hins stærra ríkis. Við sáum þetta í okkar erfiðustu milliríkjadeilu, alla vega síðustu áratuga, ef ekki á lýðveldistímanum, sem var Icesave. Þar beittu ríki, vinaþjóðir okkar, áhrifum sínum innan Evrópuverksins alls til þess að beita okkur þrýstingi sem var eftir á séð augljóslega hvorki réttmætur né sanngjarn. Þetta undirstrikar það, sem á ekki að þurfa að koma neinum á óvart, að hagsmunir stærri aðilanna ganga framar hagsmunum minni aðila, en síðan ganga hagsmunir Evrópusambandsins framar öðrum hagsmunum. Ég held að þetta sé svona keðja — ég ætla ekki að kalla það virðiskeðju — samstarfsaðila og smáríkið Íslands verður alltaf afgangsstærð. Þá er ég nú bara að reyna að leggja raunhæft mat, því miður, á stöðu okkar innan þessa regluverks alls.