149. löggjafarþing — 109. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[05:55]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta er laukrétt. Það er reyndar þannig að mönnum virðist líka liggja svo mikið á að bindast Evrópusambandinu og Evrópu fastari böndum en fyrr. Ég man eftir að ég kallaði þetta heilkenni einhvern tímann í viðræðum við hv. þm. Þorstein Víglundsson — og ég uppnefndi eiginlega flokkinn hans, hann varð ekkert mjög ánægður með mig, sem ég kallaði rörsýn, sem er andstaða við heimssýn, af því að þeir sem ekki aðhyllast þetta Evrópudekur vilja náttúrlega eiga samskipti og viðskipti við allan heiminn en ekki múlbinda sig Evrópu, sem er út af fyrir sig álfa sem er á niðurleið, ef við getum orðað það þannig. Það eru aðrir markaðir og menningarsvæði sem eru að blómstra með miklu djarfari hætti en þar. Þess vegna spyr maður: Af hverju að binda sig akkúrat við þennan heimshluta þegar allur heimurinn er í sjálfu sér undir? Ég tala nú ekki um þegar við ráðum yfir þeim flutningamiðlum sem við ráðum við í öllu eðlilegu.

Kannski er þetta einhver þrá eftir að bindast þessu landsvæði og þessu sambandi enn þá traustari böndum en fyrr. Ég veit það ekki. En menn hefðu þó samt átt að gera það þannig að sómi sé að og gera það þannig að gjörðin sem slík standist, vegna þess að hættan er sú, eins og hv. þingmaður benti réttilega á, að við erum nýbúin að stíga í spínatið með því að gera ekki nógu lögformlega fyrirvara út af hráu ófrosnu kjöti. En þetta eru bara miklu stærri hagsmunir og við eigum eftir að verða fyrir miklu meiri skaða ef illa fer með innleiðinguna á þessari gerð.