149. löggjafarþing — 109. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[05:57]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Hann fór hér í gegnum umsögn og ræddi svolítið um umsagnir og mikilvægi þeirra í þessu ferli öllu. Þá höfum við fréttir af því, ég held það sé rétt munað hjá mér, herra forseti, að 70% umsagna við þetta frumvarp eru neikvæð í garð innleiðingar þessa orkupakka sem segir okkur ýmislegt. En það virðist ekki hafa nein áhrif á áform ríkisstjórnarinnar um að keyra þetta mál í gegn.

Ég hjó eftir einni umsögn sem hefur aðeins verið rædd hér og vitnað í, það er umsögn Alþýðusambands Íslands sem er að mörgu leyti mjög merkileg og góð. Ef ég fæ að vitna aðeins í textann, herra forseti, með leyfi, þá segir hér:

„Það er því mat ASÍ að of langt hafi verið gengið nú þegar í markaðsvæðingu grunnstoða og feigðarflan að staðfesta markaðsvæðinguna og ganga lengra í þá átt.“

Þeir bæta svo við að markaðsvæðing grunnstoða hafi yfirleitt ekki bætt þjónustu, lækkað verð né bætt stöðu starfsfólks.

Hér kemur fram býsna hörð gagnrýni varðandi þennan orkupakka. Mig langaði að heyra frá hv. þingmanni hvaða áhrif hann telur að þetta geti haft á samband ríkis og Alþýðusambandsins. Nú berast t.d. fréttir af því að það sé jafnvel hugsanlegt að lífskjarasamningnum verði sagt upp og hann er bara rétt nýkominn úr ofninum, eins og sagt er.