149. löggjafarþing — 109. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[07:04]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Það er nú ein ráðgátan í þessu máli. Af hverju kýs ríkisstjórnin að líta fram hjá meginniðurstöðu þeirra Friðriks Árna og Stefáns Más? Megintillaga þeirra í málinu, eftir að hafa farið yfir það svo rækilega sem raun ber vitni, er að það verði farið með málið á vettvang sameiginlegu nefndarinnar og leitað eftir samkomulagi þar um að við Íslendingar verðum undanþegnir þeim gerðum sem helst eiga við hérna.

Ríkisstjórnin og hæstv. utanríkisráðherra hafa ekki með nokkrum hætti skýrt af hverju önnur leið varð fyrir valinu. Ríkisstjórnin, hæstv. utanríkisráðherra og hv. formaður utanríkismálanefndar hér á Alþingi hafa ekki með nokkrum hætti skýrt í hverju þessi fyrirvari liggur. Það hefur verið kastað hérna fram alls konar tilgátum og fullyrðingum og þeim fer fjölgandi, eins og ég fjallaði um í gær. Það eru einstakir þingmenn úr stjórnarliðinu sem tefla fram einhverjum atriðum sem þeir fullyrða að sé þessi fyrirvari.

Og hvernig má það vera, herra forseti, að ríkisstjórnin sjái ekki sóma sinn í því að taka af öll tvímæli um það, hvar þessi lagalegi fyrirvari er? Hvar er lögfræðilegt álit um þjóðréttarlegt gildi slíks fyrirvara? Af hverju er þetta leikhús fáránleikans látið standa svona dag eftir dag? Menn eru hér í því að leggja sig fram í sjálfboðavinnu, eins og hv. lögregluforingi og fyrrverandi sýslumaður, hv. þm. Karl Gauti Hjaltason, að nota reynslu sína af lögreglustörfum til að reyna að upplýsa þetta mál.