149. löggjafarþing — 109. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[08:11]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Það er alveg hárrétt að ákvarðanir hafa greinilega verið teknar í miklu flaustri, í miklum flýti og undir þrýstingi sem ósagt er látið. Það er alveg klárt mál í mínum huga að hér er eitthvað ósagt og stjórnarliðar, allir sem einn, þegja þunnu hljóði.

Mig langar til að lesa upp úr ræðu stjórnarliða, Kolbeins Óttarssonar Proppé, frá 30. apríl 2019, fyrir tæpum mánuði, til þess að styðja mál mitt hvað það varðar að þetta hafi verið gert í flýti. Hv. þm. Kolbeinn Óttarsson Proppés á sæti í atvinnuveganefnd sem fjallar m.a. um raforkulög og um Orkustofnun, þ.e. breytingar sem verið er að gera í þessum efnum og tengjast beint þessu orkupakkamáli. Í niðurlagi ræðurnar segir, undir liðnum störf þingsins, með leyfi forseta:

„Uppbygging grænnar atvinnustarfsemi á að vera í forgangi og við eigum jafnvel að nýta okkur opinbert eignarhald til þeirra ívilnana sem við getum komið á. Er t.d. samfélagslegur ávinningur meiri af niðurgreiðslu á flutningi rafmagns til grænmetisframleiðslu en orkusölu til að grafa eftir rafmynt þó að hærra verð fengist fyrir það síðarnefnda? Í gegnum opinbert eignarhald eigum við að nýta orkukerfið til orkuskipta og tryggja aðgang að rafmagni um allt land. Öll orkuframleiðsla þarf að lúta ströngum umhverfiskröfum og lækka þarf viðmiðunarmörk smávirkjana. Orkuna okkar eigum við að nýta til að ná markmiðum í loftslagsmálum, ekki til að flytja út rafmagn í gegnum sæstreng.“

Þetta var skoðun hv. þm. Kolbeins Óttarssonar Proppés 30. apríl sl. „Við eigum að nýta orku landsins til að gera Ísland (Forseti hringir.) kolefnishlutlaust. Um það á orkustefnan að snúast“, segir hv. þingmaður enn fremur.