149. löggjafarþing — 110. fundur,  24. maí 2019.

um fundarstjórn.

[15:31]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegur forseti. Nú er búið að ræða hér þriðja orkupakkann heldur mikið upp á síðkastið af hv. þingmönnum Miðflokksins og er augljóst að hér er um svokallað málþóf að ræða, sem eru ekkert endilega alslæm, þótt mér finnist þetta reyndar með þeim verri, verð ég að segja, sér í lagi vegna þeirrar rangfærslu sem ítrekað eru færðar eru í þeirri umræðu ítrekað þrátt fyrir ítrekaðar leiðréttingar. (Gripið fram í: Þetta er ekki umræðan.) Það er mitt mat að það muni taka marga mánuði (Gripið fram í.) að leiðrétta vitleysuna sem lögð hefur verið fram í þessari umræðu, bæði hér og annars staðar. (Gripið fram í.) Þess vegna langar mig til þess að leggja það til að … (Forseti hringir.)

(Forseti (SJS): Forseti vill benda hv. þingmanni á að málið sem hann er hér tekinn að ræða er á dagskrá.) Já, ég átta mig á því.

(Forseti (SJS): Það er hæpið að fara í mikil ræðuhöld um fundarstjórn forseta ef menn fara efnislega inn í það mál sem bíður eftir því að komast að.)

Virðulegi forseti. Ég tek það til greina. Þess vegna ætlaði ég að stinga upp á því að málinu yrði frestað fram á haust þannig að við, sem erum hlynnt málinu eftir að hafa kynnt okkur það, getum tekið til við að þrífa upp þá vitleysu sem fengið hefur að dómínera umræðuna hér og í samfélaginu hingað til.