149. löggjafarþing — 110. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[15:33]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég verð að byrja á því að taka undir það sem hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson sagði, þá tillögu hans að fresta málinu fram á haust. Ég held að það sé skynsamleg niðurstaða til að fara megi betur yfir málið og sætta þau ólíku sjónarmið sem hafa komið fram og einnig mæta þeirri óánægju sem ríkir í samfélaginu með að það eigi að keyra þetta mál í gegn. Ég minni á það að verkalýðshreyfingin hefur lýst því yfir að hún styðji ekki innleiðingu þessa orkupakka og sjö af hverjum tíu umsögnum sem bárust utanríkismálanefnd vegna málsins eru neikvæðar í garð þessa máls. Það er margt sem mælir með því að fresta málinu fram á haustið svo fara megi frekar yfir það og reyna að leita sátta um það í samfélaginu. Það er afar mikilvægt að sátt ríki um svo stórt mál.

En ég vil mótmæla því sem hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson sagði áðan þess efnis að það væri mikið um rangfærslur í málflutningi Miðflokksmanna og vitleysur, eins og hann orðaði það. Ég vil benda hv. þingmanni á að ein af þeim staðreyndum í þessu máli sem skiptir almenning verulegu máli er að rafmagnsverð til heimila og fyrirtækja í landinu hefur hækkað. Það hækkaði við innleiðingu orkupakka eitt og tvö. Með nýjum raforkulögum 2003 eru dæmi þess að fjölmörg heimili í landinu sem kynda húsnæði sitt með rafmagni hafi þurft að taka á sig tugi prósenta hækkana á rafmagnsverði þrátt fyrir að stjórnvöld hafi sagt í innleiðingu orkupakkans að ekki yrði um hækkanir á rafmagnsverði að ræða.

Það er stjórnarmeirihlutinn, og þeir flokkar sem styðja hann í þessu máli, Píratar, Viðreisn og Samfylking, sem hefur haldið uppi rangfærslum. Auðvitað er það alvarlegt mál, herra forseti, þegar því er haldið fram að rafmagnsverð muni ekki hækka til heimila en síðan hækkar það. Þar bera stjórnvöld ábyrgð. Fyrrverandi iðnaðarráðherra sagði t.d. við innleiðingu orkupakka eitt og tvö að ekki yrði hækkun á rafmagnsverði til heimila. Annað kom á daginn. Það eru svona yfirlýsingar sem hræða, sporin hræða í þessu máli.

Það er mikil óvissa varðandi innleiðingu þessa orkupakka þegar kemur að t.d. heimilunum í landinu. Hækkun á raforkuverði til heimilanna mun einnig koma til framkvæmda þegar orkupakki þrjú verður innleiddur eins og stjórnvöld leggja til. Fyrir því eru gild rök og við Miðflokksmenn erum búnir að færa gild rök fyrir því. Með þriðja orkupakka verður t.d. skylt að veita einkareknum orkuverum, vindmyllum og fleiru tengingu við flutningskerfi sem þjóðin á. Þetta veldur kostnaði og kallar á aukna fjárfestingu í flutningsgetu. Þann kostnað má ekki leggja á orkuverin. Skylt er að dreifa honum á alla notendur netsins. Það eitt og sér mun leiða til hækkunar á flutningskostnaði fyrir heimilin og fyrirtækin í landinu. Hugsanlega mun stóriðjan sleppa til að byrja með af því að hún hefur langtímasamninga. Umrædd hækkun á raforkukostnaði heimilanna mun koma til, hvort sem sæstrengur kemur eða ekki. Það er mikilvægt að halda því til haga, herra forseti. En komi sæstrengur þarf að fjárfesta enn frekar í burðargetu landsnetsins, allt á kostnað innlendra raforkunotenda.

Með þriðja orkupakkanum missum við ákvörðunarvald á verðlagningu Landsnets. Það vinnur mjög gegn hagsmunum almennings í landinu sem á Landsnet og í raun allt flutnings- og dreifikerfi raforku í landinu.