149. löggjafarþing — 110. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:36]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég áttaði mig bara ekki á því, ég hef augljóslega talað mjög lágt því að hv. þingmaður hefur ekki heyrt neitt af því sem ég sagði.

Varðandi íhaldssemina. Ég nota bara orð Stefáns Más Stefánssonar sjálfs. Hann notar þetta orðalag. Ég held að vísu að það sé ekki um hann sjálfan. Hv. þingmaður virðist vera afskaplega ósammála Stefáni Má. (ÓÍ: Það má.) — Hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson segir að það megi. (SDG: Ekki ég. …) — En Ólafur … Fyrirgefðu, þeir eru alveg eins, báðir skeggjaðir í Miðflokknum. (Gripið fram í: Það er flott. …) — Með skegg kannski. (Gripið fram í.)

En ég hvet hv. þingmann til að lesa álitsgerðina eða áréttingu sérfræðinga vegna þriðja orkupakkans, Stefáns Más Stefánssonar og Friðriks Árna Friðrikssonar Hirsts. (ÓÍ: Þarf ég að sitja undir þessu?) — Hv. þingmaður kallar: Þarf ég að sitja undir þessu?

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður vísar reglulega í þessa fræðimenn eins og gert var í fyrri umræðunni. Þeir koma hérna og leiðrétta þann misskilning sem hv. þingmaður og aðrir hafa haldið á lofti. Og hv. þingmaður sagði: Þarf ég að sitja undir þessu? (Gripið fram í: Af hverju …?) Þarf ég að sitja undir þessu? Hann segir í alvöru að það bréf sem kynnt var, ekki bara þingmönnum heldur öllum almenningi, sé fyrir utan þetta mál. En hv. þingmaður, ef hann ætlar … (ÓÍ: Utan gagna málsins. )

Virðulegur forseti. Af hverju eru þessir menn alltaf að grípa fram í? (Forseti hringir.)

(Forseti (GBr): Vinsamlegast gefið ræðumanni frið til að ljúka máli sínu.)

(ÓÍ: Afsakið.)

Virðulegi forseti. Stutta útgáfan er þessi. Ef hv. þingmaður vill ekki lesa alla álitsgerð þeirra, ef hann les bara áréttingu þeirra þá fær hann svar við öllum sínum spurningum og getur þá ekki lengur vísað til þeirra sem andstæðinga þessa máls vegna þess, eins og þeir taka skýrt fram, að þetta er þeirra tillaga, virðulegi forseti.

Varðandi dylgjurnar um Norðmenn er það er algerlega þekkt að þeir hafa með beinum hætti reynt að hafa áhrif á þetta mál, m.a. með því að koma hér (Forseti hringir.) og tala á fundum og með ýmsum öðrum aðferðum. (Forseti hringir.) Það hefur m.a. komið fram í flestum íslenskum fjölmiðlum, í það minnsta mörgum.