149. löggjafarþing — 110. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[19:12]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil ítreka hvatningu mína til hæstv. ráðherra um að leita sér ráðgjafar um muninn á sendibréfi upp á eina og hálfa síðu og lögfræðilegri álitsgerð þar sem niðurstöður eru vandlega rökstuddar og undirbyggðar.

Ég lagði kannski ekki mesta áherslu í ræðu minni á stjórnarskrána og þann þátt af tillitssemi við ráðherra en þeim mun meiri áherslu lagði ég á þá niðurstöðu hans lögfræðilegu ráðunauta um að innleiðing á reglugerð 713/2009 myndi hafa það í för með sér að erlendar stofnanir fengju a.m.k. óbein áhrif á skipulag, ráðstöfun og nýtingu íslenskra orkuauðlinda. Ég ítreka ósk mína um að ráðherra svari því hvernig hann (Forseti hringir.) hefur brugðist við þessu. Um leið óska ég eftir skýringum hans á þeirri stefnubreytingu sem (Forseti hringir.) hann stendur fyrir í utanríkismálum með því að ætla að veita aðgang að auðlindum fyrir aðgang að markaði, sem er grundvallarbreyting eins og allir gera sér ljóst.