149. löggjafarþing — 110. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[20:52]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ástæða þess að ég fer í þetta hér er að ég er hér með fyrir framan mig ræðu hæstv. ráðherra Guðlaugs Þórs Þórðarsonar frá 9. apríl sl. í fyrri umræðu um innleiðingu tilskipunar nr. 72/2009 og varðar þriðja orkupakkann eða þingsályktunartillöguna sem hér er til umræðu. Þar segir, með leyfi forseta:

„Í því sambandi skiptir líka afar miklu máli sameiginlegur skilningur með orkumálastjóra ESB á þeirri sérstöðu sem Ísland nýtur gagnvart sameiginlegum orkumarkaði.“ — Þarna geri ég ráð fyrir að hann sé að vísa til þess að við erum ótengd orkumarkaðnum eins og er. — „Þeir sérfræðingar sem leitað hefur verið til eru líka á einu máli um að sá sameiginlegi skilningur styrki mjög þær forsendur sem við leggjum til grundvallar innleiðingunni. Þótt yfirlýsingin hafa ekki bein lagaleg áhrif hefur hún lagalega þýðingu, enda sýnir hún fram á að samningsaðilar okkar hafa sama skilning og við á þeim forsendum sem við byggjum innleiðinguna á.“

Nú skil ég þetta svo að þarna viðurkenni hæstv. utanríkisráðherra að yfirlýsingin, sem hefur verið nefnt hér í öðrum ræðum að sé fyrirvari, hafi ekki lagalegt gildi. Hugsanlega mætti nota hana sem lögskýringargagn við það að sækja um varanlegan fyrirvara. Þar gæti hún haft gildi. En ef innleiðingin á sér stað með hefðbundnum hætti, eins og segir orðrétt í þingsályktunartillögunni, verður þessi yfirlýsing ekki lögskýringargagn eftir það.

Mig langar til að fá hugleiðingar hv. þingmanns gagnvart þessu atriði.