149. löggjafarþing — 110. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[23:39]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Svo virðist sem allmargir fjárfestar trúi því að fljótlega verði breytingar á raforkumarkaði á Íslandi. Við sjáum það m.a. á því að íslenskir auðmenn og erlendir eru að kaupa upp lönd og réttindi og eru líka með ráðagerðir á prjónunum um að setja upp vindmyllugarða, sem svo eru kallaðir, á nokkrum stöðum á landinu. Þær framkvæmdir myndu í sjálfu sér kosta Íslendinga töluvert mikið vegna þess að línulagnir næst þeim stöðum þar sem menn eru núna mest að velta þessu fyrir sér eru ekki með þeim hætti að þær beri rafmagnið sem þarna yrði framleitt. Þegar af þeirri ástæðu myndi það kosta gríðarleg útgjöld fyrir íslenska þjóð að koma upp betri línulögnum á þessum svæðum til að bera, nota bene, rafmagnið í burtu því að ekki á að nota það í heimabyggð, að því er manni skilst.

Við þannig rafmagnsframleiðslu, þ.e. með vindi og/eða smávirkjunum þar sem mjög mörg rannsóknarleyfi hafa verið gefin út, er enda kostnaðurinn hærri en á þeirri orku sem við framleiðum í dag. Þá spyr maður: Hver á að kaupa þessa orku hærra verði? Á hún að seljast á innanlandsmarkaði? Þá spyr maður því að það er mjög á prjónum stjórnvalda að koma á orkuskiptum: Eiga þá orkuskiptin að greiðast á hærra orkuverði en gildir á landinu nú í dag? Í öðru lagi tala menn um stóreflingu garðyrkju. Á þá garðyrkjan að greiða enn hærra raforkuverð en hún er fullhert af að borga í dag? Þetta stenst ekki nokkra skoðun.