149. löggjafarþing — 110. fundur,  25. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[00:07]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Já, það er stutta svarið. Og það er ástæða þess að fræðimenn tala um að fyrirvararnir verði að líta dagsins ljós áður en innleiðing á sér stað. Ef þeir koma til eftir innleiðingu hafa þeir ekkert gildi. Heimatilbúnir fyrirvarar eru, eins og komið hefur fram, til heimabrúks og hafa ekkert gildi. Þeir binda okkur ekki að þjóðarétti og þjóðaréttur gengur landsrétti framar í lögum og lögskýringum.

Þetta skýrir einnig álit dr. Carls Baudenbachers prófessors þar sem sá ágæti maður fjallar um að Ísland hafi gert athugasemdir í sameiginlegu EES-nefndinni áður en ákvörðunin var birt. Þar hafði íslenska samninganefndin áhyggjur af andstöðunni á Íslandi við innleiðinguna á orkupakkanum en einkum og sér í lagi við reglugerð nr. 713/2009 um ACER, um eftirlitsstofnunina.

Ísland hélt því sjónarmiði á lofti þar að við myndum taka málið upp í sameiginlegu EES-nefndinni með það að markmiði að semja um aðra aðlögun eða niðurstöðu fyrir Ísland vegna þriðja orkupakkans, og einkum þessarar reglugerðar.

Niðurstaða þessa fróma lögspekings var sú að það væri að meinalausu, vegna þess að lögformlega er sú leið rétt. Hún er rétt, hin leiðin er röng. En það virðist vera afskaplega erfitt að fá þingmenn, stjórnarliða, forsvarsmenn frumvarpsins, hæstv. ráðherra, til að koma hingað og ræða það við okkur.