149. löggjafarþing — 110. fundur,  25. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[00:48]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M):

Forseti. Í ljósi orða forseta hér áðan get ég ekki látið hjá líða að nefna aðeins í upphafi ræðu minnar, þótt hún fjalli í meginatriðum um annað, þær uppljóstranir sem hv. þm. Jón Þór Þorvaldsson kom með hér áðan, sem varpar að mínu mati a.m.k. algerlega nýju ljósi á málið, en ég hef nú fylgst með þessu vel og lengi. Við því höfum við ekki fengið nein viðbrögð, ekki frekar en öðrum uppgötvunum, öðrum ábendingum, sem fram hafa komið á meðan á þessari umræðu hefur staðið.

Það er því sérkennilegt, að mínu mati, að hæstv. forseti skuli leitast við að í rauninni þagga niður í þingmönnum, biðja þá að hætta að tala, á sama tíma og ekki fæst einn einasti þingmaður stjórnarliðsins, eða annarra flokka sem vilja knýja þessa tillögu í gegn, til að svara þessum uppgötvunum.

Hæstv. utanríkisráðherra mætti hér fyrr í kvöld, eins og forseti gat um áðan. En vandinn við þá heimsókn var sá að í fyrsta lagi svaraði hann nánast engum spurningum. Hann endurflutti talpunkta sína frá utanríkisráðuneytinu sem allir höfðu heyrt við upphaf þessa máls, virtist ekki hafa fylgst með umræðunni, brást ekki við neinu sem fram hafði komið í umræðum, og brást raunar ekki við spurningum hv. þingmanna öðruvísi en með hreinum skætingi. Ég tel því algjöran óþarfa hjá forseta að setja út á það að þingmenn skuli kvarta yfir þessari mjög svo sérstæðu framgöngu hæstv. utanríkisráðherra í dag.

Eitt af því sem hæstv. utanríkisráðherra nefndi var staða umsóknarinnar um aðild að Evrópusambandinu. Athugasemdir hæstv. ráðherra, þó að þær hafi átt að vera hluti af þeim reyksprengjum sem hann reyndi að kasta til að komast hjá umræðu um málið, voru engu að síður mjög upplýsandi með tilliti til þessa máls sem við ræðum hér. Því að ekki var annað að heyra á hæstv. ráðherranum en að hann gæfi til kynna að Ísland væri e.t.v. umsóknarríki um aðild að Evrópusambandinu. Vildi hann að sjálfsögðu kenna öðrum um það, eins og annað, og taldi reyndar ekki að Sjálfstæðisflokkurinn bæri mikla ábyrgð á því ef sú væri raunin.

Það má svo sem segja að það hefði alveg mátt taka sterkar til orða þegar umsóknarferlinu var slitið. Það var ekki hvað síst til þess að friðþægja Sjálfstæðisflokkinn, sem var á þeim tíma logandi hræddur við þann hóp sem síðar stofnaði stjórnmálaflokkinn Viðreisn, sem heldur upp á þriggja ára afmæli í kvöld, að farið var mildilega í orðaval. Hins vegar lá alveg ljóst fyrir að umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu hefði verið hafnað, Ísland væri ekki lengur umsóknarríki.

Af hverju nefni ég þetta í samhengi við þriðja orkupakkann? Jú, telji hæstv. utanríkisráðherra að Ísland sé enn þá umsóknarríki um aðild að Evrópusambandinu vegna þess að það vilji ekki sleppa, að það fallist ekki á niðurstöðu íslenskra stjórnvalda um að Ísland sé ekki lengur umsóknarríki, þá getum við rétt ímyndað okkur hvernig yrði að fást við sambandið þegar kemur að því að verja íslenska hagsmuni í orkumálum, verði þessi þriðji orkupakki innleiddur.

Við getum rétt ímyndað okkur hvort afstaða Evrópusambandsins yrði þá ekki sú að við værum búin að innleiða og skyldum aldeilis fylgja fyrri innleiðingu eftir.

Það er svo annað mál að ef hæstv. utanríkisráðherra telur raunverulega að Ísland sé enn þá umsóknarríki um aðild að Evrópusambandinu kviknar spurningin: Hvers vegna er hæstv. ráðherra ekki búinn að slíta því aðildarferli fyrir fullt og allt? En það er spurning sem á líka að setja í samhengi við þær spurningar sem vaknað hafa um þennan þriðja orkupakka og undarlegan áhuga hæstv. ráðherra á að koma honum í gegn, með góðu eða illu.