149. löggjafarþing — 110. fundur,  25. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[02:24]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni svarið. Ég held að þetta sé nefnilega hlutur sem við verðum að taka að okkur með einum eða öðrum hætti, þeir þingmenn sem taka raunverulega þátt í að ræða áhrif innleiðingar hins svokallaða þriðja orkupakka, því að þetta hlutverk hafa stjórnvöld, með hæstv. utanríkisráðherra í broddi fylkingar, vanrækt algjörlega. Það er auðvitað óboðleg staða að hér sé gerð krafa um að þessi svokallaði þriðji orkupakki verði innleiddur í samræmi við upplegg utanríkisráðherra en allri umræðu um raunveruleg áhrif í kjölfar þess að landið verði tengt, sé frestað til þess tíma er tengingin verður raunveruleg. Menn ýta á undan sér hinum stjórnskipulegu álitaefnum og ætla að fara yfir þá brú þegar þeir koma að henni, eins og varðandi greiðsluskjólið í fyrsta Icesave-samningnum forðum.

Ég held að það sé hvorki okkur þingmönnum né almenningi boðlegt að vera sett í þá stöðu að málið sé sett áfram á færibandið og inn í einstefnuloka þar sem niðurstaðan getur svo sem ekki farið í margar áttir, án þess að hafa stillt upp fullri sviðsmynd af því hver staðan verður að tengingu landsins aflokinni. Það kom mér mjög á óvart að hæstv. utanríkisráðherra skyldi koma sér algerlega undan því að nefna þetta atriði í dag og skautaði vægast sagt mjög létt yfir spurningu þessu tengt. Það fékk mig til að skilja (Forseti hringir.) málið þannig að inn í ráðuneytið hefðu engar sviðsmyndir sem (Forseti hringir.) þessar verið teiknaðar upp.