149. löggjafarþing — 110. fundur,  25. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[02:51]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég ætla að fá að gera athugasemd við orð hv. þm. Kolbeins Óttarssonar Proppés sem fór í ræðustól á undan mér. Dagskrárvaldið er í höndum forseta Alþingis, svo einfalt er það. Það er ekki í höndum þingmanna. Hv. þingmaður getur ekki sjálfur sett þingfund eða lokið honum eða frestað. Hér hafa þingmenn Miðflokksins margboðið upp á ýmsar lausnir eins og t.d. að hleypa mikilsverðum málum að. Það er eitt sem er alveg á hreinu, við höfum ekki staðið hér og verið að taka fundartíma sem var ætlaður í önnur mál. Hér höfum við staðið á nóttunni og rætt þetta mál.

Annað, á vef Stjórnarráðs Íslands kemur fram að æskilegt sé að gera grein fyrir stefnu stofnunarinnar í þessum málum varðandi vinnu- og hvíldartíma í starfsmannahandbók og ég fer fram á það, hæstv. forseti, að forseti upplýsi okkur um það hvort þessi handbók sé til þar sem ég veit ekki um slíkt (Forseti hringir.) og hvort það sé stefna í þessum málum.