149. löggjafarþing — 110. fundur,  25. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[03:30]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Já, það er málið að það vekur undrun — og ég segi það um leið og ég þakka hv. þingmanni svarið — að akkúrat þessi ráðherra eigi í hlut. Ég hefði skilið málavöxtu, rökstuðninginn jafnvel, þó ekki, ef til að mynda ráðherra úr flokki Viðreisnar hefði stýrt utanríkismálum á þessum tímapunkti. Ég hefði skilið það ef ráðherra Samfylkingar hefði stýrt málum á þessum tímapunkti. Báðir flokkar eru heiðarlegir í því að þeir vilja ganga í Evrópusambandið, en þó hefur Samfylking gert þann fyrirvara við þá yfirlýsingu sína að flokkurinn vilji halda auðlindunum í þjóðareigu og yfirráðum nýtingar og ráðstöfunar. Í þessu máli er það ráðherra Sjálfstæðisflokks, einn af stofnendum Heimssýnar, ef ég man rétt, og yfirlýstur andstæðingur Evrópusambandsins, sem gengur fram með þessum hætti. Ég held að það sé mjög ólíklegt að hann hafi ekki kallað eftir áliti embættismanna og færustu sérfræðinga, ég held hann hafi gert það. En hvað veldur því að hann vill ekki gefa afdráttarlaus svör með það og af hverju velur hann að fara ekki hina lögformlegu réttu leið? Það er bara óskiljanlegt með öllu.