149. löggjafarþing — 110. fundur,  25. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[03:52]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Það kemur fram á blaðsíðu sex í umsögninni, þegar Ísland tilkynnir EES-nefndinni að ákvörðun nefndarinnar hafi ekki hlotið samþykki, þá segir, með leyfi forseta:

„Í 102. gr. kemur skýrt fram að sameiginlega EES-nefndin skuli gera sitt ýtrasta til að finna lausn sem aðilar geta sætt sig við þegar upp koma alvarleg vandamál á sviðum sem falla undir valdsvið löggjafans í EFTA-ríkiunum, samanber 2. málslið 3. mgr. Það er skylda samningsaðila að gera sitt ýtrasta til að komast að samkomulagi um málefni samningsins, samanber 1. málslið 3. mgr. 102. gr.“

Það er alveg dagljóst að þessi réttur til að vísa orkupakka þrjú til sameiginlegu EES-nefndarinnar er algerlega ótvíræður. Það er svo merkilegt að ég tók eftir því í dag þegar hæstv. utanríkisráðherra var hér að hann kannaðist ekki við að hafa lesið þessa greinargerð. Hann kannaðist ekkert við hana og hann kannaðist ekki við þennan lögmann og talaði þannig til hans að segja: Ja, við fengum okkar færustu sérfræðinga til að vinna fyrir okkur í þessu máli.

En ég fæ ekki betur séð en að niðurstöður þessa ágæta manns, Eyjólfs Ármannssonar, falli mjög vel, í flestum tilfellum, að þeim niðurstöðum sem Friðrik Árni Friðriksson Hirst komst að í greinargerð sinni, jafnvel eftir að búið var að senda hana inn í utanríkisráðuneytið og fá hana til baka aftur til að vinna hana eitthvað upp. Það kemur samt fram svipaður tónn.