149. löggjafarþing — 110. fundur,  25. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[07:01]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni. Ég held að þetta sé alveg rétt mat hjá honum. Almenningur mun í fyrsta lagi ekki gera sér grein fyrir því hvaða afleiðingar þetta hefur vegna þess að málið er bara engan veginn nægjanlega upplýst. En ég held að það sama eigi einmitt við um stjórnmálamenn og mér finnst það góður punktur hjá hv. þingmanni um „þetta reddast“-hugsunina. Alveg eins og hæstv. utanríkisráðherra sagði í dag: Við ræðum þennan stjórnskipulega þátt málsins þegar og ef sæstrengur kemur. Þetta reddast. Það er hugsun sem á ekki að vera fyrir hendi í svona stóru og miklu máli.

Berum þetta saman við við orkupakka eitt og tvö. Ef maður talar við hinn almenna borgara í dag og hann fer að kvarta yfir rafmagnsverðinu, hvað það sé orðið hátt: Hann hefur örugglega ekki vitneskju um það, eða ég efast um það, að rót þess að rafmagnsverðið er orðið þetta hátt er orkupakki eitt og tvö. Þá komu þessar stóru hækkanir.

Alveg það sama gerðist hér með stjórnarliða sem kölluðu hér fram í þegar ég flutti mína fyrstu ræðu og upplýsti um að raforkuverð til heimila hefði hækkað um tugi prósenta við innleiðingu orkupakka eitt og tvö. Þá sögðu að það væri bara rangt.

Þau hafa í fyrsta lagi ekki kynnt sér það og sum þeirra voru bara á barnsaldri þegar þessi innleiðing var gerð. Þannig að við sjáum, eins og hv. þingmaður nefndi réttilega, það er algerlega nauðsynlegt að horfa (Forseti hringir.) fram í tímann og horfa alla leið og sjá hverjar afleiðingarnar verða þá.