149. löggjafarþing — 110. fundur,  25. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[07:52]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna. Mér er það sönn ánægja að leitast við að svara henni. Þetta er að mörgu leyti kerfi sem hannað er fyrir svæði sem er eins og Evrópa, landfræðilega mjög þétt og er í raun og veru snilldarlegt að því leytinu til, en hefur tvær hliðar. Það er auðvitað gott fyrir fyrirtæki að geta sýnt fram á að orkan sem þeir nota sé endurnýjanleg og hrein, og geta framvísað vottorði til kaupenda sinna eða viðskiptamanna, að þeir nýti slíka orku þó að raunveruleikinn sé allt annar. Það er hliðin sem snýr að viðskiptavinunum sem vilja sýna fram á að þeir séu með vöru sem sé framleidd af orku sem hafi þennan uppruna.

Hin hliðin á peningnum er tilgangurinn. Og tilgangur Evrópusambandsins með því að innleiða þessar reglur er auðvitað sá og augljóslega, að þetta mun líka hvetja raforkuframleiðendurna til að framleiða orku á umhverfisvænan hátt og með endurnýjanlegri orku, eins og vatnsfalli, vegna þess að það mun vera meiri eftirspurn eftir henni og þeir fá meira fjármagn fyrir það. Þannig að verðið á raforkunni hækkar einfaldlega, og lækkar hugsanlega verðið á orku sem framleidd er, ég leyfi mér að segja, á sóðalegan hátt, herra forseti, vegna þess að það er minni eftirspurn eftir slíkri orku.