149. löggjafarþing — 110. fundur,  25. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[09:04]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég lít svo á að hér sé í raun og sann um að ræða grundvallarspurningar um lýðræðishagsmuni þjóðarinnar. Við búum við það fyrirkomulag að kjörnir eru fulltrúar til að taka ákvarðanir í umboði þjóðarinnar. Þær ákvarðanir taka til almennra mála og í víðum skilningi, en þetta mál er öðruvísi. Þetta mál felur í sér, miðað við það álit sem lögfræðilegir ráðunautar ríkisstjórnarinnar hafa gefið, að hér er verið að veita erlendum stofnunum ákveðin ítök, eins og þeir hafa lýst nánar í álitsgerð sinni. Og til þess að taka ákvörðun af slíku tagi hrekkur fulltrúalýðræðið skammt. Slíkar ákvarðanir verða auðvitað að vera teknar undir þeim formerkjum að menn hafi áður aflað sér lýðræðislegs umboðs til að taka slíka ákvörðun.

Hvernig afla menn sér slíks umboðs? Menn tala fyrir slíku máli fyrir kosningar, lýsa fyrirætlun sinni, lýsa stefnu sinni. Og hafandi gert það og hlotið kjör til Alþingis, þá hafa menn umboð til að beita sér fyrir slíku máli. En það hefur ekki einn einasti alþingismaður lýðræðislegt umboð, a.m.k. ekki í stjórnarmeirihlutanum, miðað við málatilbúnað þeirra, miðað við þeirra mörkuðu stefnu, miðað við yfirlýsingar flokksfunda og flokksstofnana þeirra. Það er ekkert slíkt lýðræðislegt umboð fyrir hendi og er mjög alvarlegt til þess að hugsa að það skuli vera slíkur lýðræðislegur halli uppi, ef má orða það svo, í þessu máli.