149. löggjafarþing — 111. fundur,  27. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[22:28]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni andsvarið.

Það er ýmislegt annað en þessi nýtilkomna lúkning ráðherraráðsins á fjórða orkupakkanum sem kallar á og gerir það raunar alveg nauðsynlegt að málið sé tekið til frekari skoðunar. Svo eitthvað sé nefnt þarf að greina fyrirvarana miklu betur og gefa mönnum tækifæri til að sannfæra okkur efasemdarmennina um að eitthvert hald sé í þeim. Takist hæstv. utanríkisráðherra eða hv. þingmönnum sem styðja þetta mál það, þá metur maður stöðuna upp á nýtt. Þetta er atriði sem er nauðsynlegt að gefa sér tíma til að skoða.

Síðan er það fyrirtaka stjórnlagadómstólsins í Noregi 23. september næstkomandi, sem er þeirrar gerðar að fráleitt er, úr því að tími er til, að bíða ekki eftir að sjá hvernig því máli vindur fram. Og einnig að sjá hvernig hinum einhliða, skulum við segja, fyrirvörum Norðmanna reiðir af því að eins og við þekkjum hefur Evrópusambandið, 14 mánuðum síðar, ekki svo mikið sem svarað bréfi sem snýr að þeim fyrirvörum. Menn hljóta því að upplifa þá mjög haldlitla.

Varðandi spurningu hv. þingmanns um reglur um útboð nýtingarréttar hef ég bara yfirborðsþekkingu á. Ég er ekki búinn að kafa djúpt ofan í það, en allt ber að þeim brunni að ótrúlegt rask geti orðið á hagsmunum rótgróinna fyrirtækja missi þau nýtingarrétt eftir að núverandi samningar renna út. Ég kem kannski betur inn á það í seinna andsvari.