149. löggjafarþing — 111. fundur,  27. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[23:10]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Við höfum leitt líkur, ekki bara líkur, heldur rök að því að fyrirvararnir sem settir eru séu lélegir. Í þeirri álitsgerð sem ég las úr áðan segir, með leyfi forseta:

„Það er þó vafamál hvort íslensk stjórnvöld hafi í raun áform um að beita þessum fyrirvara miðað við fréttir og yfirlýsingar ráðamanna þar sem fram kemur stuðningur við áform um lagningu sæstrengs undanfarin ár. Tvöfeldni stjórnvalda er reyndar vandræðalega áberandi.“

Þetta segir í raun og veru að stjórnvöld — við höfum náttúrlega fengið þetta allt á hreint með því að fara yfir hvað menn hafa sagt fyrir ári síðan og svo núna, fjöldinn allur af mönnum úr stjórnarliðinu, og menn eru allir á því að nú sé þetta mál allt í einu orðið rosalega gott sem var alveg ægilega vont fyrir ári.

Skýringin á sinnaskiptunum er í sjálfu sér engin. Við erum, eins og ég segi, að leggja upp í óvissuferð. Við erum hugsanlega að baka okkur skaðabótaskyldu þar sem upphæðirnar yrðu ekkert smotterí og það yrðu ekki 3 milljarðar vegna hrás kjöts sem við myndum þurfa að borga í skaðabætur ef við yrðum dæmd af EFTA-dómstólnum fyrir að innleiða þessa gerð ekki rétt, heldur miklu hærri upphæðir.

Það er svo erfitt að umfaðma þetta vegna þess að maður skilur ekki alveg af hverju stjórnvöld hlusta ekki á alla þá — hér er einn maður í viðbót — sem segja: Hafnið pakkanum og notið 102. gr. Sendið þetta í sameiginlegu nefndina aftur og semjið.

Ég held að þetta sé líklega álit númer þrjú, fjögur eða fimm þar sem allir segja sama hlutinn: Ekki gera þetta eins og þið ætlið að gera núna, sendið þetta frekar til baka. En menn skirrast við.