149. löggjafarþing — 111. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[01:24]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er virkilega áhugavert umræðuefni, þ.e. valdsvið ACER og áhrif stofnunarinnar á ákvarðanatöku á Evrópska efnahagssvæðinu. Evrópska efnahagssvæðið er einmitt hugsað þannig að þar eigi að vera sérstök stofnun, ESA, sem taki ákvarðanir á sviði innleiðingarreglugerða hjá EFTA-ríkjunum og taki þar afstöðu og ákvarðanir um samningsbrot og fleira varðandi Noreg, Liechtenstein og Ísland.

En í lögfræðiáliti ráðgjafa ríkisstjórnarinnar kemur mjög berlega fram og segir neðarlega á blaðsíðu 34, þar sem þeir benda á „þau miklu áhrif sem ACER hefur á ákvarðanatöku ESA […] Slíkt fyrirkomulag fellur jafnframt illa að tveggja stoða kerfi EES-samningsins, …“ — segja þeir í álitinu.

Hvað finnst hv. þingmanni um þetta? Að það sé stofnun Evrópusambandsins sem hefur aðsetur, ég held í Slóveníu, ef ég man rétt, og er að samþætta evrópska orkumarkaðinn og svo er einhver stofnun sem við treystum á og er okkar stofnun, ESA, og ef kemur upp eitthvert mál, þá er það ACER sem skrifar í raun niðurstöðu fyrir ESA í sumum tilvikum, gerir drög að niðurstöðu. Hvernig kemur þetta heim og saman við það að við séum þátttakendur á Evrópska efnahagssvæðinu með ákveðið kerfi sem er kallað tveggja stoða kerfið, en síðan þurfum við að hlíta því að einhver evrópsk stofnun, þar sem við höfum engin áhrif og enga aðkomu að, tekur (Forseti hringir.) því sem næst ákvarðanirnar?