149. löggjafarþing — 111. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[01:38]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Það er kannski upptalningin sem er að finna í gerð nr. 72/2009, þar sem er upplýst um sex eða átta eða níu atriði sem einmitt fjalla um völd ACER á ýmsa lund. Þar inni eru atriði sem ég er ekki viss um að menn hafi almennilega áttað sig á áður en þeir samþykktu að ganga til þessa leiks.

Svo er líka, eins og við höfum svo sem komið inn á áður, sú staðreynd að fjöldinn allur af þingmönnum var mjög skeptískur á það að taka upp þennan orkupakka. Það er eins og þeir hafi verið vélaðir eða blekktir eða tældir til fylgilags við þennan pakka með því að menn settu fyrirvara, sem hefur reyndar komið í ljós að eru a.m.k. götóttir, þ.e. þeir sem hafa fundist.

Þess vegna veltir maður því fyrir sér að þegar mjög margir benda fólki á að það sé að feta ranga slóð og það lætur ekki segjast, eins og mér sýnist að meiri hlutinn sé að gera núna, getur maður ekki lengur afsakað það með þeirri röksemd að það hafi ekki vitað betur. Þegar fólk heldur áfram eftir að búið er að vara það margsinnis við og það veit betur erum við farin að tala um ásetning, ekki satt? Það virðist vera ásetningur meiri hlutans á Alþingi að keyra þennan pakka í gegn, sama hvað. Það er alveg sama hvaða athugasemdir koma fram, (Forseti hringir.) hvaða varnaðarorð, þetta skal keyrt í gegn.