149. löggjafarþing — 111. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[03:23]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni. Hann kom inn á mjög mikilvægan þátt sem er hvort þessi innleiðing standist stjórnarskrána. Þá er fróðlegt að grípa niður í álit Stefáns Más Stefánssonar og Friðriks Árna Friðrikssonar Hirsts vegna þess að það sem vekur athygli við það mál er að ríkisstjórnin, eins og við nefndum áðan, er að fresta þessu álitaefni. Hún er að fresta því að tekið verði á hinum stjórnskipulega fyrirvara. Það verði gert ef og þegar sæstrengurinn kemur. En í álitsgerð þeirra félaga segir, með leyfi forseta:

„Engin heimild er til þess að taka í lög ákvæði sem ekki fá staðist íslenska stjórnarskrá þó að svo standi á að ekki reyni á umrædd lagaákvæði í svipinn. Verður því að telja rökrétt og raunar óhjákvæmilegt að tekin sé afstaða til stjórnskipulegra álitaefna sem tengjast þriðja orkupakkanum nú þegar og það áður en Alþingi samþykkir þriðja orkupakkann.“

Þetta er mjög mikilvægur þáttur í álitsgerðinni. Það er í raun ekki heimilt að fresta umræðu um stjórnskipulegan þátt málsins með þeim hætti sem ríkisstjórnin er að gera, á þeim forsendum sem hún leggur upp með.

Þess vegna langar mig að spyrja hv. þingmann: Er ríkisstjórnin ekki að taka mjög mikla áhættu með því að fara fram með þessum hætti? (Forseti hringir.) Hvað telur hv. þingmaður að valdi því að hún treysti sér ekki til að fara í þessa athugun nú þegar?