149. löggjafarþing — 111. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[03:42]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Mig langaði aðeins að drepa á það að þessi umræða hefur verið kölluð dæmi um þjóðernispopúlisma. Uppi á Bifröst er einhver sérfræðingur í popúlisma, ég veit ekki hvar hann lærði, datt fyrst í hug Hogwarts en vildi ekki tala illa um Harry Potter þannig að ég veit ekki hvort það er rétt. Hann segir að popúlisminn sé þannig að menn ali á ótta gagnvart erlendri ógn sem steðjar að þjóðfélaginu. Í öðru lagi saka menn stjórnvöld um að svíkja þjóðina í hendur hinna erlendu ógnvalda og í þriðja lagi stilla þeir sjálfum sér upp sem vörn gegn hinni erlendu aðsteðjandi ógn og gegn hinni innlendu elítu.

Við þessari greiningu kom svar sem segir svo, með leyfi forseta:

„Nú neyðist ég til að leggja orð í belg. Fólk hefur áhyggjur af þriðja orkupakkanum — spyr áleitinna spurninga um fullveldisafsal og sjálfræði þjóðarinnar yfir orkuauðlindum sínum. Viðbrögðin? Fúkyrði og dylgjur um hugarfar þeirra sem efast: Efasemdarmönnum (sem eru af ýmsum toga og koma úr ýmsum áttum) er öllum skipað í einn hóp sem sakaður er um þjóðernisofstopa og popúlisma“ eins og ráða má af þessari umfjöllun sem ég vitnaði til áður.

Í annarri umfjöllun er hópurinn uppnefndur, kallaður lið og söfnuður. Tilteknir einstaklingar eru nafngreindir og þeir síðan flokkaðir saman og hafðir til sýnis handa hinum að hlæja og hæðast að. Hinu verður ekki svarað með rökum.

„Er ekki ástæða til að ræða þetta málefnalega? Málið snýst ekkert um ættjarðarást. Það snýst um hagsmuni Íslendinga. Hvernig væri nú að endurvekja kröfuna um auðlindaákvæði í nýrri stjórnarskrá til þess að verja þjóðina fyrir eignamyndun og ásælni í orkuauðlindir hennar, og gera kröfu um að frá því verði gengið áður en lengra er haldið með orkupakkana?

Hvar er sú umræða? Ég heyri hana ekki hjá málsvörum samfélagslegrar ábyrgðar og alþjóðasamstarfs.

Ég les bara blaðagreinar þar sem efasemdarfólkinu eru gerðar upp skoðanir, efast um hvatir þess og tilgang af því að í hópnum eru Miðflokksmenn og Flokks fólksins menn.

En í hópnum eru fleiri. Fjöldi fólks úr öllum stjórnmálaflokkum hefur efasemdir og rökstuddar spurningar sem ekki hafa fengist svör við.“

Stjórnmálafræðingurinn í meðfylgjandi frétt lýsir einkennum þjóðernispopúlisma í umræðunni og tengir við efasemdarfólkið.

„Eitt einkennið ku vera alhæfingar og uppnefni þar sem rýrð er varpað á mótaðilann. Hver er þá sekur um popúlisma í þessari umræðu?“

Þennan pistil ritar fyrrum hv. þm. Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir. Þetta hefur hún skrifað þrátt fyrir að eiga það á hættu að vera uppnefnd þjóðernispopúlisti og að hafa hinn versta tilgang.

Frú forseti. Ég ætlaði að lesa upp aðra grein, sem ég sé að ég hef ekki tækifæri til að lesa frá orði til orðs, þar sem gerð er grein fyrir því að andstaðan við orkupakkanum hafi mótast vegna þess að með honum sé að hefjast innleiðing Íslendinga inn í sameiginlegan orkumarkað Evrópu sem hefði í för með sér hækkað orkuverð til almennings eins og hefur gerst í Noregi.

Síðan hefur verið bent á að með sameiginlegum orkumarkaði kunni að vera hætta á að þeim aðilum á þeim sama markaði utan Íslands verði gert auðveldara fyrir að nýta og jafnvel virkja íslenskar orkulindir. Í þessari ágætu grein er líka talað um að utanríkisráðherra hafi samið við sjálfan sig um að koma fram þessu máli eins og það er í þessu horfi. Ein spurning er þá eftir, segir þessi ágæti greinarhöfundur, og hún er þessi, með leyfi forseta:

„Ef samþykkt orkupakka þrjú breytir engu, hver er þá nauðsyn þess að Alþingi Íslendinga samþykki hann?“

Þetta ritar fyrrverandi hv. þingmaður og fyrrverandi hæstv. ráðherra Sighvatur Björgvinsson. Ætli hann fylli popúlistaflokkinn eins og fleiri?