149. löggjafarþing — 111. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[05:06]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Annað í þessu líka sem mér finnst vera mikið áhyggjuefni er að fyrrverandi ráðherrar virðast ekki hafa áttað sig á hvaða afleiðingar þessar tilskipanir gætu haft fyrir neytendur. Til dæmis þegar við erum að innleiða þessa orkutilskipun í fyrsta sinn og breyta raforkulögunum árið 2003 kemur fram í máli fyrrverandi iðnaðarráðherra að hún telji að raforkuverð muni ekki hækka. Auðvitað eigum við að geta treyst því þegar ráðamenn þjóðarinnar koma fram og segja okkur frá því að það sé ekkert að óttast fyrir neytendur, að raforkuverð muni ekki hækka. Síðan kemur annað á daginn. Við erum búin að rekja það að raforkuverð hefur hækkað verulega undir ákveðnum kringumstæðum, svokölluð sérkjör voru afnumin vegna þess að þau voru óheimil samkvæmt nýju tilskipununum.

Mér finnst þetta vera mjög umhugsunarvert og líka í ljósi þess að nú koma ráðherrar fram og segja okkur að við þurfum ekki að hafa áhyggjur af orkupakka eitt, hann komi ekki til með að hafa áhrif. Getum við treyst þessum orðum í ljósi þess sem á undan er gengið? Það er það sem veldur mér mestum áhyggjum hvað þetta varðar.