149. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2019.

störf þingsins.

[10:49]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Fyrir tæpu ári stofnuðum við þingmenn sem vorum saman komin á sérstökum hátíðarfundi á Þingvöllum Barnamenningarsjóð í tilefni af aldarafmæli fullveldis Íslands. Nú er búið að úthluta styrkjum úr sjóðnum í fyrsta sinn, en hlutverk hans er að fjármagna og styðja við fjölbreytta starfsemi á sviði barnamenningar með áherslu á sköpun, listir og virka þátttöku barna í menningarlífi.

Meðal þeirra verkefna sem fengu styrk eru menningarhátíð barna og ungmenna á Austurlandi, íslenskir sjúkrahússtrúðar sem munu heimsækja börn á Barnaspítala Hringsins og íslenskunámskeið með listsköpun fyrir ung fjöltyngd börn fyrir vestan. Listasmiðjur, tónlistarhátíðir, leikfélög og útibókasöfn fengu einnig styrki og þannig mætti lengi telja.

Það er gleðiefni að sjá hversu fjölbreytt verkefnin voru sem fengu úthlutað styrk úr sjóðnum og færri komust að en vildu. Það er ljóst að hugmyndaflug Íslendinga er ríkt þegar kemur að málefnum barna og því ber að fagna.

Þá er einnig gleðilegt að á Alþingi verði tekið á móti ungu fólki og haldinn þingfundur ungmenna. Þannig á einnig að fagna stórafmæli okkar Íslendinga, 75 ára afmæli lýðveldisins, þann 17. júní nk.

Virðulegi forseti. Það er gömul tugga að börnin séu framtíðin. Þannig er það nú samt, en þau eru auðvitað líka nútíðin. Það er mikilvægt að virkja börn og ungmenni til þátttöku í samfélaginu. Ekki þurfa öll börn að hafa áhuga á listum, menningu eða pólitík en það er mikilvægt að skapa vettvang fyrir þá einstaklinga sem hafa áhuga á að kynna sér það og það er gott og mikilvægt að tveir hátíðisdagar séu sérstaklega nýttir til þess. Við sem störfum á hinu háa Alþingi þurfum að muna það þegar við erum að fjalla um mál og málefni og setja lög og leikreglur í samfélaginu að hafa ekki bara börn og ungmenni í huga heldur að taka þau með að borðinu til ákvarðanatökunnar.